Haustfundur FENAsR 2012 – LandsA?Ai??tlun um A?rgangsmA?l

Haustfundur FENAsR 2012 – LandsA?Ai??tlun um A?rgangsmA?l

  • December 2013
  • Posted By a8

Haustfundur Fenúr fjallaði að þessu sinni um landsáætlun um úrgangsmál. Efni fundarins var að rýna Drög að landsáætlun um úrgangsmál 2013-2024, sem Umhverfisráðuneytið birti í júní 2012. Hægt er að nálgast drög að landsáætlun um úrgangsmál á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytis[1]. Fundurinn var haldinn í samstarfi Fenúr við umhverfis- og auðlindaráðuneyti þann 15. nóvember 2012.

Formaður Fenúr, Hafsteinn Gunnarsson, setti fundinn og bauð Kjartan Ingvarsson frá Umhverfis- og auðlindaráðuneyti velkominn að kynna efni landsáætlunar. Því næst fóru Lúðvík Gústafsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins yfir sjónarmið umsagnaraðila. Að þessu loknu var fundarmönnum skipað í umræðuhópa. Hópstjórar tóku saman niðurstöður og var þeim skilað til stjórnar FENÚR og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Umræðum var skipt í þrennt þannig að fyrst var rætt um hugmyndir um takmarkanir á urðun, síðan um áform um gjaldtöku sem birtast í drögum að landsáætlun og loks um önnur atriði sem fundarmenn vildu koma á framfæri. Greinilegt er í samantektinni hér að neðan að ekki eru allir sammála og ólíkum sjónarmiðum er haldið fram. Stjórn Fenúr þakkar fyrir framlag fundarmanna til umræðnanna og telur mikilvægt að ólíkar hugmyndir nái að koma fram svo vinna megi sameiginlega að því að finna góðar leiðir til framgangs málaflokksins. Hér á eftir er samantekt á niðurstöðum hópanna.

Fyrsta umræðuefniTakmarkanir á urðun

Almennt voru hóparnir þeirrar skoðunar urða ætti sem minnst og endurvinna sem mest. Ef takmarka á urðun með lagasetningu þurfi aðrir kostir að vera tilbúnir og færir. Liggja þarf fyrir greining á áhrifum og vinna þarf heildstæða stefnu með aðkomu allra hagsmunaaðila. Töluleg markmið eru nauðsynleg en þurfa að vera raunhæf. Kostnaðargreining og umhverfisgreining þarf að liggja fyrir. Rætt var um mikilvægi eftirfylgni og ábyrgðarskiptingar. Samræmi þurfi að vera milli ráðuneyta og eftirlitsstofnana en dæmi eru um að markmið og reglur stangist á. Horfa þurfi til þess að aðstæður eru aðrar hér en í nágrannalöndum.

Fram kom sjónarmið um að óeðlilegt væri að setja takmarkanir á urðun umfram aðra förgun, s.s. brennslu. Velt var upp hvort setja ætti takmörkun á urðun beint á urðunarstaði, samhliða landsmarkmiðum. Nokkuð var rætt um svæðistengdar kröfur og undanþágur en þátttakendur voru ekki sammála um hvort flatt landsmarkmið væri raunhæft. Auka þarf skilning á núverandi stöðu og kostnaði við ný úrræði. Samnýting á lausnum, t.d. urðunarstöðum gæti aukið hagræði. Takmörkun á urðun lengir líftíma urðunarstaða. Bent var á að mikill ávinningur hefur þegar náðst þar sem mörgum slæmum urðunarstöðum hefur verið lokað. Staðan er það góð að mun erfiðara er að ná hverju prósenti héðan í frá en áður. Leggja ætti áherslu á flokkun úrgangs á upprunastað, styrkja nýtingarmöguleika t.d. lífræns úrgangs, leggja áherslu á að draga úr urðun þess sem er hættulegt umhverfinu og auka fræðslu.

Annað umræðuefni – Gjaldtaka

Miklar efasemdir komu fram um skattlagningu og er hún ekki talin líkleg til árangurs í aukinni endurvinnslu. Fram kom það sjónarmið að skattlagning væri það síðasta sem grípa skyldi til. Varðandi urðunarskatt þótti sumum ekki eðlilegt að skattleggja urðun umfram aðra förgun. Ef til þess kæmi að leggja slíkan skatt væri það einungis réttlætanlegt ef fjármununum væri haldið aðskildum og miðlað aftur í málaflokkinn en miklar efasemdir voru um að slík skattlagning myndi skila sér í málaflokkinn og hann myndi því þróast í almennan skatt.

Skiptar skoðanir voru um framleiðendaábyrgð. Sumir töldu best að koma fleiri úrgangsflokkum í einhverskonar úrvinnslusjóðskerfi, þá jafnvel með skilagjaldi. Aðrir höfðu efasemdir um skilgjald. Rætt var um að einfalda skilagjaldskerfi fyrir drykkjarumbúðir þ.e. hafa fleiri drykkjartegundir þar undir. Einnig þótti skilgreining á framleiðendaábyrgð of þröng. Rætt var um að PPP reglan (polluter pays principle) ætti að vera almennt notuð en einnig að ekki ætti að greiða fyrir skil á úrgangi. Ýmist var bent á að greiðsla fyrir skil geri fólk meðvitaðra um kostnað eða að greiðsla verði til þess að úrgangur hverfi í óskilgreindan farveg. Bent var á að nauðsynlegt er að auka vitund almennings um kostnað við sorphirðu, meðhöndlun, endurvinnslu og förgun án þess að ganga of langt í beinni gjaldtöku.

Þriðja umræðuefni – Önnur atriði

Almennt var kallað eftir meira samráði við hagsmunaaðila á frumstigi við gerð landsáætlunar um úrgangsmál. Tryggja þurfi að til sé umræðuvettvangur eins og Fenúr. Fram kom það sjónarmið að framtíðasýn í drögum að landsáætlun væri óskýr og jafnvel ekki raunhæf. Markmið þurfa að vera raunhæf, frekar en mikilfengleg. Flokkun á ekki að vera flokkunar vegna. Skortur væri á úrbótatillögum. Bakgrunnsupplýsingar í skýrslunni eru ekki nægilegar góðar, t.d. sé magntölum ábótavant. Bent var á að í drögunum vanti greiningu á stöðu mála og afleiðingar tillagna og áætlunin hefur ekki farið í gegnum lífsferilsgreiningu eða cost-benefit greiningu. Hampa þurfi því sem vel er gert og horfa meira á tækifærin, ekki einungis vandamálin. Stefnumótun og reglur þurfa að standa til langs tíma því aðgerðir eru kostnaðarsamar.

Rætt var um þörf á skýrari reglum um skráningu úrgangs og nauðsyn þess að kröfur um skráningu verði ekki umfram notagildi gagnanna. Bæta þurfi flokkunarreglur. Setja ætti endurvinnslu og endurnýtingu á heimavelli í forgang en þó gæta að hagkvæmni. Rætt var um þörf á urðunarstað fyrir spilliefni sem æskilegt væri að allir á landinu hafi aðgang að. Ekki er fjallað í drögunum um svæðisáætlanir, ábyrgðarskiptingu né brennslur í framtíðinni. Tenging milli landsáætlunar og svæðisáætlunar þykja ekki skýr. Þó nokkrir aðilar væru lítt sýnilegir í landsáætlun, t.d. Matvælastofnun, heilbrigðiseftirlit og sorphirðuþjónustuaðilar. Nokkuð var rætt um fræðslu og að hún mætti vera betri og að samræma þurfi skilaboð til almennings.[1] http://www.umhverfisraduneyti.is/frettir/nr/2113

Nafn

Netfang

Nafn fyrirtækis