Frábær og skemmtileg fræðsluferð

nóv 17, 2025

Fræðsluferð Fenúr tókst vel og var bæði skemmtileg og upplýsandi. Skemmtilegur hópur sem átti góða stund saman og þeysireið um bæinn.

Heimsóttum hreinsistöð hjá Veitum við Klettagarða; þetta er mun stærri og meiri stöð en maður gerir sér grein fyrir. Var mikið framfaramál á sínum tíma og þarna fer fram umfangsmikil hreinsun á úrgangi sem ekki allir gera sér grein fyrir. Þarna safnast ristarúrgangur, fita og mengaður jarðvegur og þar myndast mikilvæg tenging við önnur úrgangsfyrirtæki. Þarna eru því mikil tækifæri og áskoranir um frekara samstarf. Framundan er mikil breyting á öllu regluverki og stór innviðauppbygging sem kallar á víðtækt samstarf og hringrásarhugsun.

Textílmóttaka SORPU í Gufunesi var næst heimsótt. Um sjö tonn á dag koma þar inn. Textíllinn er mál málanna í dag og miklar og góðar umræður sköpuðust um þetta flókna og mikilvæga mál.

Þar næst lá leið til Helguvíkur á Suðurnesjum, þar sem brennslustöð Kölku var heimsótt. Steinþór og félagar tóku vel á móti hópnum og sýndu okkur starfsemina. Miklar umræður um nýja hátæknisorpbrennslu þar sem margt er að gerast.

Takk fyrir skemmtilega og fjöruga ferð!